154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Leigubremsan er til að koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leiguhúsnæði fólks. Það er ástæðan. Að það verði fyrirsjáanleiki hjá launafólki sem leigir húsnæði, að það komi ekki skyndilegar hækkanir á fólkið og það verði kjaraskerðing hvað það varðar. Það að leigubremsa komi í veg fyrir framboð á leiguhúsnæði er bara ekki rétt. Að sjálfsögðu myndi leigubremsan vera þannig að leigjandinn hefði rétta ávöxtun á húsnæði sínu. Það er ekki vandamálið. Vandamálið er þessi græðgisvæðing á leigumarkaðnum, það kemur skyndilegt sjokk á fólkið við hækkanir. Leigubremsa er til að koma í veg fyrir það að markaðurinn, húsnæðiseigendur sem eru leigusalar geti algerlega haft í hendi sér hvernig þeir hækka leiguverð. Það er það sem þetta snýst um, að fólk lendi ekki á götunni vegna þessa.

Varðandi baráttu gegn verðbólgunni þá þarf náttúrlega að forgangsraða henni algerlega í ríkisfjármálum, baráttunni gegn verðbólgu. Draga úr þenslu. Hvernig gerir þú það? Jú, þú minnkar ríkisútgjöld, skerð niður, gerir það af krafti til að keyra niður verðbólgu, gerir það tímabundið af því að áhrifin koma strax fram. Þú getur líka hækkað skatta, við tökum peninga út úr hagkerfinu. Það er ríkisstjórnin ekki að gera. Þetta 300 kr. gistináttagjald finnst mér allt of lítið, ég verð að segja alveg eins og er. Þetta er atvinnugrein sem er á alveg fljúgandi ferð í samfélaginu, gríðarlegur kraftur í henni og við verðum bara að beisla þann kraft til að greinin greiði sinn skerf til samfélagsins. Hún býr við lægra virðisaukaskattsþrep o.s.frv. Það er sáraeinfalt mál hvernig á að gera það í ríkisfjármálum, það er að draga úr þenslu, minnka ríkisútgjöld, hækka skatta. Það væri hægt að gera það þannig að við myndum koma út í plús í ríkisfjármálunum og byrja að greiða niður skuldir. Það er mín skoðun og ég kom inn á þetta í ræðu minni varðandi ferðaþjónustuna sem er á fleygiferð og ríkisstjórnin ætlar ekkert að aðhafast meira en að leggja á 300 kr. gistináttagjald.